Lífið

Bastörðum tekið vel á Norðurlöndum

Vöktu lukku Flakki samnorrænu sýningarinnar Bastards um Norðurlöndin er nú lokið en hún hlaut mikið lof gagnrýnenda í Svíþjóð og Danmörku.
Vöktu lukku Flakki samnorrænu sýningarinnar Bastards um Norðurlöndin er nú lokið en hún hlaut mikið lof gagnrýnenda í Svíþjóð og Danmörku.
Samnorræna leiksýningin Bastards hefur fengið afbragðs gagnrýni hjá nágrönnum okkar í Svíþjóð og Danmörku. Sýningin hefur verið á flakki um Norðurlöndin síðan hún var forsýnd á Listahátíð í vor, en það er Gísli Örn Garðarsson sem leikstýrir verkinu.

Danskir miðlar gefa sýningunni minnst fjórar stjörnur, en sýningum í Kaupmannahöfn lauk nú um helgina. Jyllandsposten gefur verkinu fjórar stjörnur og segir leikhúsgagnrýnandinn meðal annars að verkið sé „falleg blanda raunsæis, farsa og draumkennds andrúmslofts og allt umvafið laufskrúði, stórbrotinn paradísargarður. Fantagóðir leikarar sem nýta sér sviðsmyndina í klifur og kattfiman leik."

Sænskir gagnrýnendur taka í sama streng og fara lofsamlegum orðum um sýninguna. Þá heillast þeir af hinum samnorræna anda sem einkennir verkið, en sýningin er samstarf Borgarleikhússins, Vesturports, Malmö Stadsteater og Får302 í Kaupmannahöfn. „Einstaklega heillandi og fersk sýning með frábærri leikmynd og leikhústöfrum," segir í rýni SR Malmö en leikmyndahönnuðurinn Börkur Jónsson á heiðurinn að leikmyndinni.

Tólf leikarar frá Svíþjóð, Danmörku og Íslandi leika í verkinu en Ólafur Darri Ólafsson, Víkingur Kristjánsson og Jóhanna Vigdís Arnardóttir eru fulltrúar Íslands. Bastards, eða Bastarðar á íslensku, verður svo sýnd með íslensku leikaraliði í Borgarleikhúsinu í lok október.- áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×