Skoðun

Heilbrigðar tennur!

Margrét Júlía Rafnsdóttir skrifar
Barnaheill – Save the Children á Íslandi fagna tillögum sem starfshópur velferðarráðherra hefur lagt fram um framtíðarfyrirkomulag tannlækninga barna sem gert er ráð fyrir að taki gildi um næstu áramót. Þar er gert ráð fyrir að greitt verði að fullu fyrir tannlækningar barna í áföngum. Þann 1. janúar 2018 verði tannlækningar allra barna þeim að kostnaðarlausu að frátöldu hóflegu komugjaldi.

Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem Ísland hefur fullgilt eiga öll börn rétt á að njóta besta mögulega heilsufars sem hægt er að tryggja með læknisaðstoð og heilbrigðisþjónustu. Ekki má mismuna börnum hvað það varðar vegna stöðu þeirra eða foreldra þeirra. Mjög mikilvægt er að tannheilsa barna þurfi ekki að líða fyrir efnahag foreldra þeirra.

Fyrr á árinu stóðu Barnaheill fyrir málþingi um þá óheillaþróun sem átt hefur sér stað í tannheilsu íslenskra barna. Þar kom meðal annars fram að á aðeins 16 ára tímabili hefur Ísland farið úr því að vera í hópi tíu efstu þjóða meðal OECD-landa hvað tannheilsu 12 ára barna varðar, í það að vera í sjötta neðsta sæti. Mikill kostnaður við tannlækningar er meginástæða þessa. Samtökin skoruðu þá á stjórnvöld, tannlækna og samfélagið allt að leggjast á eitt til að bæta tannheilsu íslenskra barna og komu af stað undirskriftasöfnun. Tæplega sex þúsund undirskriftir söfnuðust og voru þær afhentar Guðbjarti Hannessyni, velferðarráðherra, þann 27. september sl.

Foreldrar bera meginábyrgð á að tryggja börnum sínum umönnun og vernd samkvæmt Barnasáttmálanum. Í því felst meðal annars skylda til að gæta þess að tennur séu hirtar og að koma í veg fyrir óhóflega sykurneyslu barna. Sykurneysla íslenskra barna í formi sælgætis og sætra drykkja er langt umfram það sem eðlilegt getur talist.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi leggja mikla áherslu á að tillögur starfshóps velferðarráðherra fái brautargengi og þannig verði þeirri óheillaþróun sem átt hefur sér stað snúið við.

Það er á ábyrgð samfélagsins alls að stuðla að jafnræði þegar kemur að tannheilsu barna og að gera öllum börnum kleift að vera með heilbrigðar tennur.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×