Skoðun

Jóhönnulánin

Sigríður Andersen skrifar
Það liggur fyrir að þeir sem tapað hafa mestu af eigin fé í húsnæði sínu eru þeir sem keyptu sína fyrstu íbúð eða stækkuðu við sig á árunum 2007 og 2008.

Í lok árs 2007 voru viðskiptabankarnir nær hættir að lána til íbúðarkaupa enda hafði þrengst um lánsfé og margt sem benti til að erfiðleikar væru fram undan í efnahagslífi Vesturlanda. Þá beitti Jóhanna Sigurðardóttir húsnæðismálaráðherra sér hins vegar fyrir auknum útlánaheimildum Íbúðalánasjóðs (ÍLS). Hámarkslán ÍLS voru hækkuð og slakað á kröfum um hámarksveðsetningarhlutfall. Útlán sjóðsins tóku kipp við þessar aðgerðir.

Í nýrri skýrslu Samtaka fjármálafyrirtækja um verðtryggingu, vexti og verðbólgu á Íslandi má glöggt sjá hvernig útlán ÍLS nær þrefölduðust frá áramótum þar til þau náðu hámarki síðsumars 2008.

Jóhanna Sigurðardóttir narraði þannig fjölda manna til íbúðarkaupa síðustu mánuðina fyrir hrun.

Í þingræðu 23. maí 2008 sagði Jóhanna að ÍLS hefði „sannað gildi sitt sem lífæð fasteignamarkaðarins“. Hið rétta er að mánuðina þar á eftir veitti þessi æð ólyfjan um fasteignamarkaðinn sem gerði það að verkum að fleiri fóru illa út úr fasteignaviðskiptum en ella hefði orðið.

Þessi heimili hafa annaðhvort eða bæði tapað stórum hluta eigin fjár í fasteignum sínum eða eru komin í neikvæða stöðu. Auðvitað er hugsanlegt að með tímanum hækki íbúðaverð umfram lán og staða þessa fólks batni en þangað til verður staðan óþægileg.

Í viðurkenningarskyni fyrir þessa frammistöðu tók Jóhanna svo við sem forsætisráðherra í vinstri stjórn sem bannaði þessu fólki helstu bjargir með því að snarhækka alla skatta og tefja fyrir atvinnusköpun vítt og breitt um landið.

Lágir skattar og næg atvinna eru þó ein helsta forsenda þess að heimilin geti staðið við skuldbindingar sínar og treyst stöðu sína og þar með þjóðfélagsins.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×