Skoðun

Nýju fötin keisarans

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir skrifar
Síðastliðinn þriðjudag varð nokkurt uppnám „á markaði" vegna ummæla minna um Íbúðalánasjóð. Eitthvað fór tímasetningin fyrir brjóstið á stressuðum viðskipavinum kauphallarinnar, þó innihald þess sem ég sagði gæfi vart tilefni til upphlaupa og æsings. Ég sagði ekkert annað en það sem allir „markaðsaðilar" vita. Íbúðalánasjóður á í miklum vanda og á honum þarf að taka til skamms tíma og til frambúðar. Í ljósi sögunnar þarf þetta upphlaup þó vart að koma á óvart. Sumir viðskiptavinir kauphallarinnar virðast alltaf jafn hissa þegar bent er á augljósa hluti.

Haustið 2010 þurfti ríkissjóður að leggja Íbúðalánasjóði til 33 milljarða króna. Ég samþykkti það framlag á Alþingi en gerði að skilyrði að fram færi rannsókn á Íbúðalánasjóði. Niðurstaða þeirrar rannsóknar er væntanleg innan tíðar.

Undanfarna mánuði hefur farið fram á vegum fjármálaráðherra úttekt á stöðu Íbúðalánasjóðs og nauðsynlegra aðgerða til að lágmarka tjón ríkissjóðs og þar með almennings á Íslandi. IFS greining vann skýrslu fyrir ráðherra og þar segir m.a.: „Með kerfisbreytingu sjóðsins hinn 1. júlí 2004 og tilheyrandi skiptiútboði var lagður grunnur að þeim vanda sem sjóðurinn hefur átt við að glíma á síðustu misserum. Frá þeim tíma hefur sjóðurinn verið með opna vaxtaáhættu/uppgreiðsluáhættu sem lýsir sér í að skuldir sjóðsins eru óuppgreiðanlegar meðan útlán sjóðsins eru það ekki. Þessi áhætta er stærsta áhætta sjóðsins að mati IFS." Mér og „markaðnum" hefur lengi verið þessi áhætta ljós og lýsti ég þeirri skoðun minni á þriðjudaginn að grípa yrði til aðgerða.

Ríkisstjórnin ákvað sl. þriðjudag að óska eftir því við Alþingi að stofnfé Íbúðalánasjóðs yrði aukið um 13 milljarða króna á fjárlögum 2013. Þá má búast við frekari framlögum á næstu árum til sjóðsins og allt stefnir í að kostnaður ríkisins vegna hans verði a.m.k. 50 milljarðar þegar upp er staðið. Fyrir þá peninga væri hægt að reisa nýjan Landspítala. Alþingsmenn hafa tjáð sig af minna tilefni!




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×