„Við stofnuðum þennan kammerhóp þegar við komum heim frá námi og á hverju einasta ári höfum við haldið svona kertaljósatónleika. Létum sérútbúa kertastjaka og flytjum þá á milli og gefum rafmagnsljósunum alveg frí. Svo er bara rökkrið kringum áheyrendur og það ríkir mikil stemmning," segir Hallfríður Ólafsdóttir, flautuleikari í Camerarctica.
Fram undan eru fernir tónleikar í jafnmörgum kirkjum, í Hafnarfjarðarkirkju miðvikudagskvöld 19. desember, í Kópavogskirkju fimmtudagskvöldið 20. desember, í Garðakirkju föstudagskvöldið 21. desember og í Dómkirkjunni laugardagskvöldið 22. desember. Tónleikarnir eru um klukkustundar langir og hefjast allir klukkan 21. Flytjendur eru auk Hallfríðar flautuleikara þau Ármann Helgason klarinettuleikari, Hildigunnur Halldórsdóttir og Rannveig Marta Sarc fiðluleikarar, Svava Bernharðsdóttir víóluleikari og Sigurður Halldórsson sellóleikari.
Aðgangseyrir er 2.500 og 1.500 fyrir nemendur og eldri borgara en frítt er fyrir börn yngri en tólf ára.
„Þetta er 20. árið sem svona tónleikar eru haldnir og nú verðum við með sömu efnisskrá og við byrjuðum með," segir Hallfríður.
„Tvær af perlum Mozarts, Klarinettukvintettinn og Flautukvartettinn í D-dúr. Það eru mikil uppáhaldsverk sem hafa fengið að hljóma af og til. Að venju lýkur tónleikunum á Í dag er glatt í döprum hjörtum úr Töfraflautunni og oftast hljóma síðustu tónarnir um leið og klukkurnar í kirkjunum slá tíu. Við höfum fundið mikið þakklæti fyrir að hafa staðið að þessu. Mörgum finnst ómissandi að koma úr miðri ösinni inn í kyrrðina og kertaljósin og hlusta á eitthvað fallegt og friðsælt fyrir jólin."
Lífið