Sport

Alex Smith kominn til Kansas

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alex Smith með þjálfara 49ers, Jim Harbaugh.
Alex Smith með þjálfara 49ers, Jim Harbaugh. Nordic Photos / Getty Images
Nýtt keppnistímabil í NFL-deildinni hófst formlega í gær en mikið er um félagaskipti leikmanna um þetta leyti.

Alex Smith, leikstjórnandi San Francisco, var í gær skipt til Kansas City en Smith var valinn fyrstur í nýliðavalinu árið 2005.

Smith hefur verið aðalleikstjórnandi San Francisco en missti sæti sitt í byrjunarliðinu þegar hann fékk slæmt höfuðhögg um mitt síðasta tímabil.

Í fjarveru hans tók Colin Kaepernick stöðu hans og sló í gegn. Þó svo að Smith hafi verið leikfær stuttu síðar hélt Kaepernick sæti sínu í byrjunarliðinu. Hann fór svo með San Fransico alla leið í Super Bowl þar sem liðið tapaði reyndar fyrir Baltimore, 34-31.

Smith var hjá San Francisco í átta ár og stóð sig vel. Það hefur hins vegar legið í loftinu síðan að Caepernick ýtti honum úr liðinu að Smith væri á leiðinni annað.

Í gær var einnig formlega tilkynnt að Anquan Boldin, útherjinn sterki hjá Baltimore, væri á leið til San Francisco. Hann og Smith eiga þó báðir eftir að standast læknisskoðun.

Boldin var sérstaklega góður í úrslitakeppninni og skoraði til að mynda fyrsta snertimarkið í Super Bowl-leiknum gegn San Francisco.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×