Innlent

Darri leikur í Dexter

Darri Ingólfsson
Darri Ingólfsson
Leikarinn Darri Ingólfsson hefur landað hlutverki í raðmorðingjadramanu Dexter, sem eru með vinsælli þáttum í heiminum þessa dagana. Darri mun leika fornmunasala sem tekur saman við nágrannakonu Dexters að því er fram kemur í erlendum fjölmiðlum.

Ekkert meira hefur verið gefið upp um söguþráðinn annað en að þáttaröðin, sem er sú áttunda í röðinni, er líklega sú síðasta.

Darri er ekki eini nýi leikarinn sem bætist í hópinn því Sean Patrick Flanery mun einnig leika í þáttaröðinni. Einhverjir gætu kannast við hann úr kvikmyndinni The Boondock Saints.

Darri hefur verið að hasla sér völl í þáttum í Bandaríkjunum en hann leikur núna í þáttunum Last resort sem fjallar um líf hermanna. Þeir þættir eru ekki til sýningar hér á landi.

Darri lék einnig aðalhlutverkið í íslensku kvikmyndinni Boðbera sem fékk heldur misjafna dóma hjá íslenskum gagnrýnendum.

Dexter hafa verið sýndir hér á landi síðustu ár við töluverðar vinsældir. Michael C. Hall, sem túlkar raðmorðingjann Dexter, hefur meðal annars fengið Golden Globe fyrir leik sinn í hlutverkinu.

Eins og kunnugt er þá fjallar þátturinn um hinn kolbrjálaða Dexter sem beinir siðblindu morðæði sínu að glæpamönnum og misyndismönnum og myrðir þá með köldu blóði. Það er því raunveruleg hætta að persóna Darra muni enda með vofveiflegum hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×