Fótbolti

Juventus ítalskur meistari í 29. sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/NordicPhotos/Getty
Juventus tryggði sér í dag ítalska meistaratitilinn annað árið í röð með því að vinna 1-0 sigur á Palermo. Þetta er 29. meistaratitilinn félagsins frá upphafi.

Juventus er með fjórtán stiga forskot á Napoli þegar aðeins þrjár umferðir eru eftir. Liðið hefur unnið 26 af 35 leikjum og aðeins tapað fjórum.

Juventus varð meistari 2005 og 2006 en missti báða titlana þegar hneykslismálið mikla kom upp þar sem félagið flæktist inni í umsvifamikið net þar sem úrslitum margra leikja á Ítalíu var hagrætt.

Stuðningsmenn félagsins telja þá titla samt enn með og mátti sjá borða á lofti þar sem þeir fögnuðu 31. meistaratitlinum.

Arthur Vidal skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu á 59. mínútu leiksins en vítið fiskaði Mirko Vucinic.

Antonio Conte, þjálfari Juventus, var kátur í leikslok. „Þetta hefur verið mikil glæsiför að titlinum. Við erum ánægðir og stoltir. Strákarnir eiga allan heiðurinn skilinn því þeir hafa verið magnaðir allt þetta tímabil. Ég er stoltur af þeim því það var ekki auðvelt að vinna titilinn aftur," sagði Antonio Conte en liðið hefur orðið meistari á tveimur fyrsti tímabilum hans sem þjálfari. Conte vann titilinn fimm sinnum sem leikmaður Juve.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×