Tenniskappinn Rafael Nadal er kominn í úrslit á opna franska meistaramótinu í tennis eftir maraþon sigur á Novak Djokovic. Nadal vann fyrsta settið 6-4 en Djokovic svaraði með fínum sigri í öðru settinu 6-3.
Nadal rústaði síðan þriðja settinu 6-1 og var með pálmann í höndunum. Djokovic var ekki á því að gefast upp og vann fjórða settið 7-6 eftir aukalotu. Það þurfti þá að grípa til oddasetts sem Nadal vann 9-7 eftir þvílíka dramatík.
Það tók þessa mögnuðu íþróttamenn meira en fjóra og hálfan tíma að klára leikinn og voru þeir báðir alveg búnir á því fyrir vikið.
Spánverjinn mun mæta landa sínum David Ferrer í úrslitum mótsins á sunnudaginn.
Rafael Nadal hefur núna unnið 58 viðureignir á Roland Garros-vellinum í París og aðeins tapað einu sinni. Opna franska meistaramótið fer ávallt fram á Roland Garros.
Nadal í úrslit á opna franska eftir sigur á Djokovic
