Ísland eignaðist þrjá Norðurlandameistara unglinga á Norðurlandamóti 19 ára og yngri sem fram fer um helgina í Espoo í Finnlandi. Björg Gunnarsdóttir sigraði á nýju persónulegu meti í 400 m hlaupi kvenna, Kolbeinn Höður Gunnarssson sigraði í 400 m hlaupi á nýju Íslandsmeti 18 til 19 ára og þá bætti Aníta Hinriksdóttir Norðurlandameistaratitli í safnið sitt þegar hún vann 800 metra hlaupið örugglega.
Kolbeinn Höður Gunnarssson sigraði í 400 m hlaupi á 47,91 sekúndum sem er besti árangur Íslendings í 18-19 ára aldursflokki frá upphafi. Þetta er jafnframt sjöundi besti árangur frá upphafi í greininni. Gamla metið var 48,03 sekúndur en það átti Sveinn Elías Sveinsson frá árinu 2007. Kolbeinn hafði hlaupið best áður 48,06 sekúndum á EM í Rieti í síðasta mánuði.
Björg Gunnarsdóttir sigraði á nýju persónulegu meti í 400 m hlaupi kvenna, en hún kom í mark á tímanum 55,90 sekúndum. Í öðru sæti var Betty Strandberg frá Svíþjóð á 56,44 sek.
Eins og vænta mátti bætti Aníta Hinriksdóttir Norðurlandameistaratitli í safnið, þegar hún kom í mark á 2:03,94 mínútum í 800 metra hlaupi kvenna en hún sigraði þessa grein örugglega og var um fimm sekúndum á undan næsta keppinaut sínum.
Aníta Hinriksdóttir hefur því unnið þrennuna í sumar, orðið Heims- Evrópu- og Norðurlandameistari.
Sport