Fótbolti

Tjá sig ekki um munntóbaksnotkun landsliðsþjálfarans

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lars Lagerbäck hefur náð góðum árangri með karlalandslið Íslands.
Lars Lagerbäck hefur náð góðum árangri með karlalandslið Íslands. Mynd/Vilhelm
Athygli vakti þegar Lars Lagerbäck, þjálfari karlalandsliðsins í knattspyrnu, svaraði spurningum íþróttafréttamanns í gær með úttroðna efri vör. Viðtalið má sjá hér.

Lars viðurkenndi í viðtali við Fréttablaðið haustið 2011 að hafa tekið í vörina frá fimmtán ára aldri til ársins 2010. Hann notaði tóbakið ekki að staðaldri en ætti til að fá sér í vörina ef honum stæði það til boða.

KSÍ hefur tekið þátt í herferðinni „Bagg er bögg“ undanfarin ár þar sem bent er á skaðsemi munntóbaksnotkunar.

Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ, vildi ekki tjá sig um munntóbaksnotkun landsliðsþjálfarans í samtali við Vísi í dag. Minnti hann á leikinn mikilvæga gegn Sviss á morgun sem væri það sem máli skipti þessa stundina.

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, er staddur með landsliðinu í Sviss. Ekki hefur náðst í Geir í morgun þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Landsliðskonan Hallbera Guðný Gísladóttir, sem var í sigurliði Piteå gegn Umeå í efstu deild í Svíþjóð í gærkvöldi, bendir á þá staðreynd á Twitter að þjálfarar í Svíþjóð noti munntóbak í miklum mæli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×