Innlent

Bændagisting með stærsta veitingasal Suðausturlands

Kristján Már Unnarsson skrifar
Lítil bændagisting, sem barnmörg hjón byrjuðu með á Smyrlabjörgum í Suðursveit árið 1990, hefur vaxið upp í að verða eitt veglegasta sveitahótel landsins og þar er nú stærsti veitingasalur Suðausturlands.

Fjallað var um uppbygginguna á Smyrlabjörgum í þættinum „Um land allt" á Stöð 2 í kvöld.

Hjónin Laufey og Sigurbjörn ásamt Birnu Þrúði, dóttur sinni.Myndir/Baldur Hrafnkell Jónsson, Stöð 2
Þau Laufey Helgadóttir og Sigurbjörn Karlsson hafa haldið áfram að reka 500 kinda sauðfjárbrú á Smyrlabjörgum, þrátt fyrir vaxandi annir í ferðaþjónustunni. Laufey hætti hins vegar sem ljósmóðir til að einbeita sér að hótelrekstrinum. 

Þau stækkuðu nýlega veitingsalinn sem nú er orðinn sá stærsti á Suðausturlandi og tekur yfir 250 manns í sæti. Laufey segir þörf á svo stórum sal til að geta tekið á móti stórum hópum, eins og frá skemmtiferðaskipum sem komi inn til Djúpavogs.

Birna Þrúður Sigurbjörnsdóttir sýnir okkur eitt af herbergjunum en hún er elst fimm barna þeirra. Gistirými er fyrir 110 manns, allt í herbergjum með baði, og nú á enn að stækka.

Þau ætla í vetur að bæta við 28 herbergjum sem eiga að verða tilbúin fyrir næsta sumar.

Sigurbjörn segir að fleiri í nágrenninu séu að stækka og býst við að um eitthundrað herbergi bætist við á svæðinu fyrir næsta sumar.


Tengdar fréttir

Gönguferðir á skriðjökla úr Skaftafelli í allan vetur

Ferðamannastraumur í Skaftafell utan sumartímans hefur aukist það mikið að fyrirtækið Íslenskir fjallaleiðsögumenn ætlar nú í fyrsta sinn að bjóða þar upp á gönguferðir á skriðjökla í allan vetur.

Árnar horfnar og eftir standa gagnslitlar brýr

Þrjár stórar brýr á Suðausturlandi hafa mætt þeim örlögum á undanförnum áratugum að verða gagnslitlar og jafnvel óþarfar vegna þess að árnar hurfu sem þær áttu að brúa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×