Það var snemma í morgun sem ökumenn og vegfarendur við Mörkina tóku eftir undarlegum mannaferðum í Sogamýri. Þrír menn voru þar á ferð og dreifðu svínshausum og blóði um túnið. Þeir sögðu vegfarenda að þeir væru með þessu að mótmæla fyrirhugaðri Mosku á svæðinu og skildu þeir einnig eftir sjálfan Kóraninn, útataðan í svínablóði.
Starfsmenn Reykjavíkurborgar voru snöggir á staðinn og hreinsuðu upp hræin.
Fáar en háværar raddir gagnrýnisraddir hafa verið uppi um byggingu Mosku í Sogamýri. En lóðinni hefur verið úthlutað, deiliskipulagið samþykkt og hugmyndasamkeppni um útlit bænahússins hefst á næstunni.

Í ágúst síðastliðnum greindi Vísir frá því að notendur á nýnasista-vefsvæðinu alræmda Stormfront hefðu hvatt íslendinga til að mótmæla moskunni.
Hér er um að ræða hreinræktaðan hatursáróður. Mönnunum sem örkuðu um túnið í morgun, með svínshausa í eftirdragi, mistókst ætlunarverk sitt, að mati forsvarsmanna Félags múslima á Íslandi sem gefa lítið fyrir lágkúru sem þessa.
Salmann Tamimi þekkir fordóma af eigin raun. Hann fær reglulega hatursfull skilaboð á samskiptamiðlum og í smáskilaboðum. Hann vorkennir þeim sem voru að verki í Sogamýri í morgun.

„Þetta móðgar okkur ekki neitt. Þetta sýnir í raun aðeins hvers eðlis þetta fólk er. Ef þetta breiðist út í okkar fallega samfélagi þá getur það skaðað okkur öll,“ segir Salmann að lokum.