Vilborg Einarsdóttir, stjúpmóðir Friðriks Kristjánssonar, þrítugs Íslendings sem ekkert hefur spurst til síðan í byrjun apríl, var í viðtali við paragvæsku fréttastofuna ABC Color í gær.
Lögreglan hér á landi lýsti eftir Friðriki í apríl og greindi fréttastofa Stöðvar 2 frá því í sama mánuði að lögreglu hefðu borist upplýsingar um að Friðriki hefði verið ráðinn bani erlendis, en eftirgrennslan lögreglu hafi þó ekki leitt neitt slíkt í ljós. Alþjóðalögreglan Interpol lýsti síðan eftir Friðriki í ágúst og sagði að síðast hafi sést til hans í Paragvæ.
Vilborg segir í samtali við paragvæsku fréttastofuna að fjölskylda Friðriks sé undir miklu álagi vegna hvarfsins. Hún segist jafnframt óttast að stjúpsonur sinn hafi verið fórnarlamb glæps. Hann hafi síðast látið vita af sér 31. mars, en þá hafi hann hringt frá flugvelli í Brasilíu og sagst vera á leið til Paragvæ.
Hún biður almenning að hafa augun opin og hafa samband við lögreglu ef einhver hefur upplýsingar um afdrif Friðriks. Þá segir hún að á næstu vikum verði nánar lýst eftir honum í stórum fjölmiðlum og víðar.