Innlent

Banka­maður í fangelsi fyrir innherjasvik

Stígur Helgason skrifar

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í gær Friðfinn Ragnar Sigurðsson, fyrrverandi forstöðumann hjá Glitni, í eins árs fangelsi fyrir innherjasvik.

Þetta er í annað sinn sem maður er dæmdur fyrir innherjasvik á Íslandi. Hitt málið sneri að Baldri Guðlaugssyni ráðuneytisstjóra, sem hlaut tveggja ára dóm fyrir innherjasvik í fyrra.

Friðfinnur var forstöðumaður millibankamarkaðar í fjárstýringu Glitnis fyrir hrun. Hann seldi hlutabréf sem hann átti í bankanum fyrir rúmar tuttugu milljónir í mars, apríl og september 2008 og var ákærður fyrir að hafa búið yfir innherjaupplýsingum í öll skiptin.

Fjölskipaður Héraðsdómur Reykjavíkur er sammála. Friðfinnur er því sakfelldur í öllum ákæruliðum og segir í niðurstöðunni að „með hliðsjón af nauðsyn varnaðaráhrifa í málum sem þessum“ sé ekki unnt að skilorðsbinda fangelsisrefsinguna.

Friðfinnur kom nokkuð við sögu í Vafningsmálinu svokallaða á hendur Lárusi Welding og Guðmundi Hjaltasyni. Við aðalmeðferð þess var meðal annars leikin upptaka af símtali hans við Alexander K. Guðmundsson þar sem þeir kölluðu báðir Vafningsviðskiptin „skítafléttu“.

Eignir Friðfinns eru gerðar upptækar til ríkissjóðs, nokkrar milljónir í innistæðum og helmingshlutur í fasteign í Kópavogi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×