Skoðun

Til hamingju Ísland eða hvað?

Það eru margir sem fá hamingjuóskir þessa dagana enda tími skólaslita og útskrifta. Við getum verið stolt af þeim sem klára áfanga og halda til starfa í samfélaginu eða til áframhaldandi náms. Við gleðjumst yfir þessu en það hefur líka komið fram að margir heltast úr lestinni í framhaldsskóla. „Þurfum þjóðarátak gegn brottfalli,“ sagði Skúli Helgason alþingismaður í grein í Fréttatímanum 26. október 2012 og bætti við: „Það er engan veginn ásættanlegt að upp undir þriðjungur nemenda í framhaldsskóla hrökklist frá námi án þess að fá viðunandi þjónustu.“ Lóa Pind Aldísardóttir fjallar af sinni alkunnu snilld um þetta málefni á Stöð 2 þessa dagana í þáttunum Tossarnir.

129 ungmenni fengið stuðning

Hjálparstarf kirkjunnar vill leggja lóð á vogarskálarnar til að fækka þeim sem hætta námi. Staðreyndin er sú að erfið fjárhagsstaða fjölskyldna getur bitnað á framhaldsskólanámi ungmenna. Námsgögn, skólagjöld, kaup á tölvu, sem í sumu námi er nauðsynleg, og annar kostnaður vegna námsins getur orðið hindrun í að ljúka námi. Þegar fjárhagsstaðan er erfið eru öll útgjöld há. Hjálparstarfið hefur stofnað Framtíðarsjóð sem styður ungmenni 16-20 ára til stúdentsprófs, sveinsprófs eða annars sem leiðir til starfsréttinda eða opnar leið til háskólanáms. Þannig léttum við undir, ekki bara á einni önn heldur eins lengi og þarf til að ljúka námi. 129 ungmenni úr 18 sveitarfélögum fengu stuðning á síðasta skólaári. Margir hafa lokið námi með starfsréttindi og hafa hafið störf, aðrir hafa hafið háskólanám.

Útskriftargjöf sem gefur

Hvernig getum við um leið og við gleðjumst með þeim sem útskrifast úr námi gert öðrum kleift að ljúka námi? Jú, með því að gefa í útskriftargjöf gjafabréfið Framtíðarsjóður sem hægt er að kaupa á skrifstofu Hjálparstarfsins eða á vefsíðunni gjöfsemgefur.is. Þá fær útskriftarneminn persónulegar hamingjuóskir um leið og hann getur lesið á gjafabréfinu upplýsingar um Framtíðarsjóðinn, hvernig hann gerir gæfumuninn fyrir aðra sem annars hefðu á hættu að geta ekki lokið námi. Það skiptir nefnilega máli að fleiri fái að heyra: „Til hamingju með áfangann!“




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×