Átta keppendur sendu mínútu löng myndbönd af sér að gera snjóbrettabrellur innanbæjar. Dómnefnd velur þrjú efstu sætin, en áhorfendur kjósa um vinsælasta myndbandið í útsláttarkeppni.
„Ég bjóst ekki við að þetta færi svona. Þetta er mjög gott,“ segir Eiríkur. „Það er gott að hafa íslensku þjóðina á bakvið sig.“ Að auki vill hann þakka öllum þeim sem kusu hann.
Í undanúrslitum mætir Eiríkur Bandaríkjamanninum Dan Brisse. „Þessi umferð verður mun erfiðari, því þessi strákur er sá sem hefur unnið keppnina oftast. Hann er með tvö gull og eitt silfur á þremur árum,“ segir Eiríkur.
Undanúrslitin standa yfir til 20. janúar og hér er hægt að sjá myndbandið hans Eiríks og eru allir Íslendingar hvattir til að kjósa myndbandið sem þeim finnst flottara. Vert er að benda á að allir geta kosið einu sinni á dag, á hverjum degi út keppnina.
Niðurstöður dómnefndar sem velja þrjú efstu sætin í myndbandakeppninni verða kynntar á X-Games, sem standa yfir frá 23. til 26. janúar í Aspen í Colorado fylki í Bandaríkjunum.
