Sandskeiði og Hellisheiði eru nú lokuð vegna stórhríðar samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni. Búist er við stormi (meira en 20 m/s) á miðhálendinu í dag og einnig við suðurströndina, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu.
Hálka og snjókoma er á Reykjanesbraut og Grindavíkurvegi. Hálka eða hálkublettir eru á flestum öðrum vegum á Suðurlandi. Hálka og snjókoma er á Mosfellsheiði og í Ölfusinu. Óveður er undir Eyjafjöllum.
Á Vesturlandi er hálka eða hálkublettir á flestum leiðum en snjóþekja á Heydalsvegi á nokkrum vegum í innsveitum Borgarfjarðar. Flughált er á Skógarströnd.
Hálka eða snjóþekja er víða á Vestfjörðum en flughált er milli Súðavíkur og Öguness í Ísafjarðardjúpi og einnig á Snæfjallaströnd.
Á Norðvesturlandi er hálka, hálkublettir eða snjóþekja en flughálka frá Varmahlíð og inn Blönduhlíð. Þæfingsfærð er á milli Hofsóss og Ketiláss en unnið að hreinsun.
Norðaustanlands er snjóþekja á Öxnadalsheiði og á norðausturhorninu en annars víða hálka eða hálkublettir. Flughált er á Dettifossvegi.
Á Austurlandi eru vegir á Héraði að mestu auðir en hálka á flestum fjallvegum. Snjóþekja er í Hjaltastaðaþinghá og á Vatnsskarði eystra. Hálkublettir eru síðan mjög víða með suðausturströndinni frá Reyðarfirði og að Kirkjubæjarklaustri. Hálka og snjókoma er milli Kirkjubæjarklausturs og Mýrdalssands.
