Sport

Ofurskálin ber nafn með rentu

Birgir Sverrisson skrifar
Stuðningsmenn Seattle Seahwks, sem er í eigu auðjöfursins og Íslandsvinarins Paul Allen, eru mættir á austurströndina. Þeir ganga undir viðurnefninu "Tólfti maðurinn“.
Stuðningsmenn Seattle Seahwks, sem er í eigu auðjöfursins og Íslandsvinarins Paul Allen, eru mættir á austurströndina. Þeir ganga undir viðurnefninu "Tólfti maðurinn“. Vísir/AFP
Það hefur líklega ekki farið framhjá mörgum áhugamönnum um amerískan fótbolta að Super Bowl eða “Ofurskálin” fer fram vestanhafs annað kvöld. Það hefur ef til vill ekki heldur farið framhjá mörgum sem fylgjast með þessari íþrótt að þessi árlegi viðburður er frægur fyrir margar aðrar sakir heldur en það sem fylgir venjulegum leik í NFL deildinni.

Aukaatriði eins og tónleikar í hálfleik, auglýsingar í sjónvarspútsendingunni og fjölmiðlaupphitunin vikuna fyrir leikinn (og eftir) eru nefnilega þættir sem auka verðgildi þessa viðburðar gífurlega, sem er skv. bandaríska viðskiptatímaritinu Forbes lang verðmætasti íþróttaviðburður heims.

Stuðningsmenn Denver Broncos með hetjuna sína, Payton Manning leikstjórnanda Broncos, í fanginu.Vísir/AFP
Miðað við þeirra útreikinga þá var síðasti Super Bowl viðburður í New Orleans metinn á ríflega þrisvar sinnum meira heldur en heimsmeistarkeppnin í knattspyrnu, sem er stærsti íþróttaviðburður heims. Raunar er það svo að heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu og fleiri aðrir viðburðir skila margfalt hærri tekjum heldur en Super Bowl en vegna þess að sjálfur viðburðurinn stendur einungis yfir í einn dag þá hefur hann vinninginn.

Talið er að Super Bowl á síðasta ári hafi skilað National Football League (NFL) 474 milljónum bandaríkjadala í tekjur, sem var reyndar örlítil lækkun frá árinu á undan aðallega vegna þess að miðasala gekk ekki eins vel. Það var líka almennt meiri áhugi fyrir leiknum árið 2012 milli New England Patriots og New York Giants, sem á einmitt metið í mesta áhorfi á útsendingu í sögu bandarísks sjónvarps með 111 milljónir áhorfenda.

Mikið mun mæða á Marshawn Lynch hjá Seattle Seahawks í Ofurskálinni á sunnudagskvöldið.Vísir/AFP


Þrjár stórar sjónvarsstöðvar (CBS, Fox og NBC) skiptast nú á að sýna viðburðinn. Hvernig þeim tekst að selja augýsingar fyrir útsendinguna er stór ákvörðunarþáttur í þeirra tekjustreymi fyrir rekstrarárið en þó er nánast öruggt að plássin seljist upp. Auglýsingar fyrir leikinn nk. sunnudag seldust upp í desember sl. og hverjar 30 sekúndur af auglýsingaplássi kosta nú að meðatali um 4 milljónir dala, miðað við 3,75 milljónir í fyrra.

Sökum fjölda leikhléa og eðli leiktímans þá er magn auglýsingatímans hlutfallslega mjög hátt. Því ætti ekki að koma á óvart að sjónvarspsstöðvarnar eru að selja auglýsingar fyrir um 220-250 milljónir dala í útsendingunni. Hins vegar kostar rétturinn til þess að sýna leikinn sjálfan oft 80-90% af auglýsingatekjunum og því reiða sjónvarsstöðvarnar sig á tekjuöflun tengda útsendingum fyrir og eftir leikinn þar sem kostnaður við útsendinguna sjálfa myndi annars þýða að stöðin hreinlega tapaði. Smá hluti af ástæðunni fyrir þessu háa auglýsingaverði er einnig sá að fólki finnst þær almennt skemmtilegar og gætu þessir auglýsingatímar hreinlega talist afþreyingarefni á mörgum bandarískum heimilum.

Samkvæmt markaðsrannsóknarfyrirtækinu Kantar Media þá eyðir um fjórðungur fyrirtækja sem auglýsa í Super Bowl meira en 10% af heildar auglýsingakostnaði fyrir allt árið í auglýsingar tengdar leiknum, og hefur það hlutfall verið tiltölulega stöðugt gegnum árin en á móti kemur að prósentan í heildarkostnaði hefur risið hjá þessum minnihlutahópi sl. tvö ár. Þetta hefur þýtt að auðveldara er að selja langar auglýsingar og því hefur fjöldi auglýsenda fækkað þrátt fyrir aukinn heildar auglýsingatíma.

Þá hefur auglýsingatíminn skiptst frekar á auðug fyrirtæki sem hafa auðveldlega efni á að auglýsa í 2-4 mínútur en einnig á nýliða sem eyða háu hlutfalli eða allt að 30% af sínum árlega kynningarkostnaði í að veðja á að koma sínum vörumerkjum almennilega á kortið með því að auglýsa í eitt skipti fyrir öll.

Stuðningsmenn Broncos í New York.Vísir/AFP


Einn af reglulegum gestum á sjónvarspsskerminum í leikhléum er bjórframleiðandinn Anheuser-Busch sem hefur verið hvað mest áberandi í þessum bransa undanfarin ár. Bíða oft margir óþreyjufullir eftir þeirra sérstöku Super Bowl auglýsingum sem oft geta verið hið mesta grínefni. Fyrirtækið hefur eytt að meðaltali í kringum 25 milljónum dala í hvern leik undanfarin tíu ár og hreinlega kjöldregur Pepsi Co. sem er í öðru sæti. Þá hefur það einnig greitt fyrir einkarétt á bjórauglýsingum tengdum leiknum sem er ekki talið með í kostnaðinum.

Anhauser-Busch mun í þetta sinn aðeins auglýsa tvo vinsælustu drykkina sína í samtals þrjár og hálfa mínútu á kostnað nýjunga þar sem talið er að aðalkeppinauturinn, Coors Light, sé að sækja í sig veðrið. Tortímandinn sjálfur, Arnold Schwarzenegger, mun birtast í auglýsingu fyrir Bud Light í þetta skiptið. Auglýsinguna má sjá hér að neðan.



Madonna skemmti í hálfleik á Super Bowl fyrir tveimur árum. Í ár sjá Bruno Mars og Red Hot Chili Peppers um að skemmta heimsbyggðinni.Vísir/AFP


Einnig er fróðlegt að skoða neyslutölur í kringum þennan íþróttaleik en skv. Alþjóðlega hitaeiningaráðinu (Calorie Control Council) þá er áætlað að meðal bandarískur Super Bowl áhorfandi neyti 1200 hitaeininga og 50 gramma af hreinni fitu einungis frá snakki, sælgæti og meðlæti og eru þá máltíðir ekki taldar. Pizzur og kjúklingvængir eru vinsælustu máltíðirnar og telur Kjúklingaráð Bandaríkjanna (The National Chicken Council) að það séu borðaðir 1,2-1,3 milljarðar kjúklingavængja þessa helgi og þó það sé ekki skiljanleg samlíking frekar en sú staðreynd að það væri hægt að fylla leikvanginn sjálfan af því guacamole sem fer í neyslu, þá væri hægt að breiða úr þessum fjölda vængja tvisvar sinnum umhverfis jörðina.

Til þess að komast í hóp ríflega 85 þús. áhorfenda á MetLife Stadium á sunnudaginn þarf meðal manneskja að grafa ofan í veskið. Ódýrustu miðarnir á leikinn kostuðu 500 dollara skv. opinberum tölum en á vefsíðunni Stubhub.com, sem er stór vettvangur fyrir endursölu á miðum, er ódýrasti miðinn nú á um 1600 dollara og þeim fylgja ekki bílastæði (kosta 250 dollara aukalega). Dæmi eru um að lúxus svítur sem rúma 8-12 manns séu til endurleigu á í kringum eina milljón dollara.

Þrátt fyrir að þessi viðburður sé gríðarstór tekjulind að þá safnar hann ekki nema um 5% af heildartekjum National Football League, sem er lang tekjuhæsta íþróttadeild í heiminum í dag með yfir 10 milljarða dollara í árstekjur.

Super Bowl XLVIII milli Denver Broncos og Seattle Seahawks fer fram á Metlife Stadium í New Jersey verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD á sunnudagskvöld. Upphitun hefst klukkan 22.00 en leikurinn sjálfur klukkan 23.25. Andri Ólafsson stýrir umræðum á meðan leiknum stendur og áhorfendur eru hvattir til að taka þátt á Twitter með merkinu ‪#‎NFLisland‬.

NFL

Tengdar fréttir

Wilson: Ég vil líkjast Peyton

Seattle-maðurinn Russell Wilson segist bera mikla virðingu fyrir Peyton Manning, leikstjórnanda Denver Broncos.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×