Innlent

Smíða gítar úr íslenskum viði

Kristján Már Unnarsson skrifar
Kassagítar úr íslensku birki er meðal gripa sem hjón á sveitabæ við Egilsstaði smíða en þau hafa haft lifibrauð af skógum Fljótsdalshéraðs í meira en fjörutíu ár. Þau segja því fá takmörk sett sem þau láta sér detta í hug að smíða úr íslenskum viði.

Hráefnið er skógurinn sem Fljótsdalshérað hefur meira af en önnur héruð Íslands, og það hafa hjónin á Miðhúsum við Egilsstaði, þau Edda Björnsdóttir og Hlynur Halldórsson, nýtt sér alla sína starfsævi. Fyrir aldarfjórðungi, þegar stjórnvöld hrundu af stað bændaskógaverkefninu, urðu þau fyrst til að gerast skógarbændur.

Á Miðhúsum eru þau með ferðamannaverslun og trésmíðaverkstæði þar sem eingöngu er unnið úr skógum Íslands. Þau segja nánast engin takmörk fyrir því sem þau láta sér detta í hug að smíða úr íslenska viðnum og til marks um það sýna þau okkur gítar sem Hlynur smíðaði úr birki og greni. Edda sýnir okkur líka ýmislegt matarskyns sem hún vinnur úr skóginum, eins og sýróp og sveppi.

Í þættinum „Um land allt" á Stöð 2 annaðkvöld, þriðjudagskvöld, verður fjallað um vaxandi nytjar af íslenskum skógum, í opinni dagskrá klukkan 19.20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×