Sport

Útnefningin kom Smith á óvart

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Malcolm Smith, varnarmaður Seattle Seahawks, hlaut hinn svokölluðu MVP-verðlaun fyrir frammistöðu sína í Super Bowl í nótt.

Smith, sem spilar í fremstu varnarlínu Seattle (e. linebacker) er sá þriðji sinni stöðu frá upphafi sem er valinn mikilvægasti leikmaður úrslitaleiksins sem fór fram í 48. sinn í nótt.

Seattle vann stórsigur á Denver í nótt, 43-8, en einn af hápunktum leiksins var þegar Smith komst inn í sendingu Peyton Manning, leikstjórnanda Denver, og skoraði snertimark eftir 69 jarda hlaup.

Smith var þó aðeins einn af mörgum varnarmönnum Seattle sem áttu sannkallaðan stórleik í nótt eins og sést á úrslitum leiksins. Seattle-vörnin hélt Manning og einu besta sóknarliði sögunnar algjörlega í skefjum.

„Ég var alltaf búinn að sjá fyrir mér að ég næði að gera góða hluti en hafði aldrei leitt hugann að MVP-verðlaununum,“ sagði Smith eftir leikinn í nótt. „Ég var bara ánægður með að vera á vellinum.“

Seattle komst í 22-0 forystu með snertimarki Smith en eftir það varð ljóst að róðurinn yrði afar þungur fyrir Denver.

Aðrir leikmenn í sömu leikstöðu sem hafa verið valdir mikilvægustu leikmenn Super Bowl eru Chuck Howley hjá Dallas Cowboys árið 1971 og Ray Lewis hjá Baltimore Ravens árið 2001.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×