Innlent

Á annan tug sóttu um að verða Borgarleikhússtjórar

Jakob Bjarnar skrifar
Þorgerður Katrín segir margar umsóknanna vænlegar en í næstu viku verða umsækjendur teknir í viðtal.
Þorgerður Katrín segir margar umsóknanna vænlegar en í næstu viku verða umsækjendur teknir í viðtal.
Á annan tug manna sækjast eftir stöðu leikhússtjóra Borgarleikhússins, að sögn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur stjórnarformanns LR.

Nöfn umsækjenda verða ekki gefin upp að svo stöddu. Nokkrir óskuðu nafnleyndar og er stjórnin nú að fara yfir umsóknirnar. Þegar staðan var auglýst laus til umsóknar var áskilið að umsækjendur greindu frá framtíðarsýn sinni í 800 orða ritgerð. Þorgerður segir það þó nokkra lesningu að fara yfir það í ljósi þess hversu margir sóttu um.

„Stjórnin er að fara yfir umsóknir og síðan munum við fara í það að taka viðtöl við umsækjendur í næstu viku. Margar umsóknanna eru mjög vænlegar og það er mjög ánægjulegt. Voða gaman,“ segir Þorgerður Katrín.

Ráðið er í starfið til fjögurra ára. Heimilt er samkvæmt samþykktum LR að endurráða leikhússtjóra önnur fjögur ár. Miðað er við að nýr leikhússtjóri taki til starfa eins fljótt og auðið er en nánari tímasetning er samkomulagsatriði en hann mun njóta liðsinnis Magnúsar Geirs Þórðarsonar fráfarandi leikhússtjóra en hann er að taka við sem útvarpsstjóri, eins og kunnugt er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×