Að minnsta kosti einn lést þegar átök brutust út í borginni Simferopol á Krímskaga í dag milli stuðningsmanna og andstæðinga Viktors Janúkovítsj, fyrrverandi forseta Úkraínu.
Eins og greint hefur verið frá hefur forseti úkraínska löggjafarþingsins, Oleksandr Túrtsjínov, tekið við forsetaembættinu til bráðabirgða.
Hóparnir mótmæltu báðir fyrir framan þinghús borgarinnar og veifuðu sumir úkraínska fánanum og hrópuðu slagorð. Aðrir hrópuðu „Krím er Rússland“ og gripu lögreglumenn að lokum inní.
Meðal andstæðinga Janúkovítsj eru íslamskir tatarar og eru þeir hlynntir stjórnarskiptunum og mjög mótfallnir auknum stjórnmálatengslum við Rússland.
Þá hafa stjórnvöld í Úkraínu hafið opinbera glæparannsókn vegna átakanna í síðustu viku, þar sem tugir féllu í götubardögum mótmælenda og lögreglu. Liggur Janúkovítsj undir grun um að hafa fyrirskipað morð á mótmælendunum, en handtökuskipun hefur verið gefin út á hendur forsetanum fyrrverandi.

