Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra var sannkallað lukkudýr íshokkíliðsins Edmonton Oilers í Kanada í gærkvöldi þegar liðið lagði New York Islanders 3-2.
Sigmundur Davíð sótti leikinn ásamt konu sinni í vinnuferð í Edmonton í Kanada, en Icelandair flaug jómfrúarflug sitt til borgarinnar í fyrradag.
Lið Edmonton Oilers var 0-2 undir á heimavelli lengi framan af en í þriðja og síðasta leikhluta dró til tíðinda þegar Sigmundur Davíð og kona hans voru kynnt leikmönnum og áhorfendum á leiknum á stórum sjónvarpsskjáum á vellinum.
Mikil fagnaðarlæti brutust út og stuttu seinna minnkaði heimaliðið muninn. Oilers jafnaði síðan leikinn þegar lítið var eftir og sigraði að lokum í uppbótartíma, 3-2.
Kanadamenn á leiknum voru á einu máli um að kynningin á íslenska forsætisráðherranum hefði gert gæfumuninn.
Sigmundur Davíð var ekki sá eini sem fékk sérstaka kynningu á sjónvarpsskjáum áhorfenda í Edmonton heldur var íshokkístjarnan Wayne Gretzky einnig viðstaddur.
Gretzky er þjóðhetja í Kanada en hann spilaði 20 tímabil í NHL deildinni fyrir fjögur lið og leiddi kanadíska landsliðið til sigurs á heimsmeistaramóti þrisvar sinnum.
Sigmundur Davíð lukkudýr íshokkíliðsins í Edmonton
Fanney Birna Jónsdóttir í Edmonton skrifar
