Erlent

Stöðvuðu íranska vopnasendingu

Elimar Hauksson skrifar
M-302 eldflaugarnar voru faldar á milli sementspoka um borð í skipinu. Þær hafa 200 kílómetra drægi og voru meðal annars notaðar af Hezbollah í borgarastyrjöldinni í Líbanon á síðustu öld.
M-302 eldflaugarnar voru faldar á milli sementspoka um borð í skipinu. Þær hafa 200 kílómetra drægi og voru meðal annars notaðar af Hezbollah í borgarastyrjöldinni í Líbanon á síðustu öld. Mynd/AFP
Ísraelar lögðu í dag hald á íranska vopnasendingu um borð í skipi við strendur Súdan en frá þessu greinir á vef BBC.

Vopnasendingin var um borð í skipi sem bar fána Panama en talið er að vopnin hafi verið á leið til Gaza strandarinnar, þar sem Hamas samtökin ráða ríkjum. Um borð í skipinu fundust M-302 eldflaugarnar sem voru faldar á milli sementspoka. Þær hafa 200 kílómetra drægi og voru meðal annars notaðar af Hezbollah samtökunum í borgarastyrjöldinni í Líbanon á síðustu öld.

Haft er eftir yfirmanni ísralesku öryggissveitarinnar IDF að sautján manna áhöfn skipsins hafi ekki vitað af því að vopnasendingin hafi verið um borð en fylgst hafi verið með sendingunni í nokkra mánuði. Henni hafi fyrst verið flogið frá Damaskus til Tehran og þaðan til suðurhluta Írans þar sem henni var komið fyrir um borð í skipinu en þaðan hafi sendingin farið til Írak þar sem sementspokum var hlaðið yfir vopnin. Skipið hafi svo siglt af stað til Súdan þar sem það var stöðvað af Ísraelum áður en það náði til hafnar, um 1500 kílómetrum frá Ísrael.

Hamas samtökin hafa staðfastlega neitað fyrir það að sendingin hafi verið á leið til þeirra á Gaza svæðið en meira en 60 eldflaugum hefur verið skotið til Ísraels frá Gaza síðan í byrjun síðasta árs.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, fullyrti á blaðamannafundi í dag að vopnin hefðu verið notuð gegn Ísrael hefðu þau komist á áfangastað. Netanyahu er nú í opinberri heimsókn í Bandaríkjunum en hann hefur þrýst á að alþjóðasamfélagið taki harðar á kjarnorkuáætlun Írana og vopnasölu Írana, meðal annars til Hamas samtakanna og Hezbollah.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×