Jonti Roos segir aðstoðarflugmanninn Fariq Abdul Hamid og annan flugmann hafa leyft sér og vinkonu sinni að vera í klefanum meðan á fluginu stóð, stillt sér upp á myndum með þeim og reykt sígarettur í flugstjórnarklefanum. Ef rétt reynist er um alvarlegt brot á flugreglum að ræða.
Roos sagði í samtali við áströlsku sjónvarpsstöðina Channel Nine að vinkonurnar hafi verið í klefanum bæði í flugtaki og við lendingu, en flugið tók um eina klukkustund og var frá Taílandi til Kúala Lúmpúr.
Hún segir flugmennina hafa talað við þær allan tímann og ekki veitt sjálfu fluginu athygli. Áhöfn vélarinnar hafi lítið kippt sér upp við það og svo hafi virst sem þetta væri ekki óvenjulegt fyrirkomulag.
Flugvél Malaysian Airlines er enn leitað en ekkert hefur til hennar spurst frá því á laugardag.

