Stöðvar 2-menn fóru nýlega með aðstoð björgunarsveitar á vélsleðum til að hitta Elísabetu Pétursdóttur, sem jafnan er kölluð Bettý, en hún er sauðfjárbóndi á Sæbóli. Síðastliðin tólf ár hafa hún og Þór sonur hennar verið einu íbúar þessa einangraða dals. Hann sækir grunnskóla á Flateyri og dvelur virka daga á heimili systur sinnar meðan á skólatíma stendur en kemur heim um helgar, þegar færð leyfir.

Bettý ræðir opinskátt í þættinum um hvernig fólk úr nærumhverfinu lagðist gegn því að hún byggi þarna áfram. Fólk hafi komið og sagt að það væri ekki forsvaranlegt að hún væri þarna ein að ala upp barnið; strákurinn yrði einstrengingslegur og sérlunda. Hún hafi svo verið kærð til barnaverndarnefndar, sem hafi komið í heimsókn og gert úttekt á aðstæðum. „Sem betur fer var það fólk sem var þar við völd og á bæjarskrifstofunum réttsýnisfólk og gott fólk,“ segir Bettý.
Í þættinum verður einnig rætt við börnin hennar, soninn Þór og dótturina Kristínu, um hvernig sé að alast upp á Ingjaldssandi. Fyrri þáttinn, sem sýndur var síðastliðinn þriðjudag, má sjá hér.