Enski boltinn

Tim Sherwood: Ég er ekki að fara neitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tim Sherwood, knattspyrnustjóri Tottenham.
Tim Sherwood, knattspyrnustjóri Tottenham. Vísir/Getty
Tim Sherwood, knattspyrnustjóri Tottenham, býst ekki við öðru en að hann verði áfram stjóri Gylfa Þórs Sigurðssonar og félagar í Tottenham á næsta tímabili.

Sherwood var spurður út í framtíð sína á blaðamannafundi í Lissabon í Portúgal fyrir seinni leik Tottenham á móti Benfica í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar en Benfica vann fyrri leikinn 3-1 á White Hart Lane.

Veðbankar telja líklegast að Louis van Gaal verði ráðinn knattspyrnustjóri Tottenham í sumar en Sherwood sem fékk 18 mánaða samning í desember er ekki á förum.

„Fólk er alltaf að spyrja mig að þessu og það er augljóst að van Gaal vill þjálfa á Englandi. Hann hefur náð góðum árangri og er góður stjóri. Ég er viss um að hann fær sitt tækifæri því nóg hefur hann kallað eftir því. Ég er samt ekki að fara neitt," sagði Tim Sherwood.

Tottenham hefur tapað síðustu tveimur deildarleikjum á móti Chelsea (0-4) og Arsenal (0-1) og er að dragast aftur úr í baráttunni um laus sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð. Evrópudeildin er síðasti möguleikinn á titli en þar er útlitið ekki gott eftir 1-3 tap á heimavelli í fyrri leiknum.

Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×