Viðskipti innlent

Kannast ekki við að hafa veitt samþykki fyrir Aurum Holding-láninu

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Fram kom að Rósant hefði fengið svokallaða friðhelgi frá embætti sérstaks saksóknara, það er að hann myndi ekki sæta ákæru þrátt fyrir að gögn eða upplýsingar sem hann kynni að veita embættinu leiði líkur að því að hann hefði framið brot.
Fram kom að Rósant hefði fengið svokallaða friðhelgi frá embætti sérstaks saksóknara, það er að hann myndi ekki sæta ákæru þrátt fyrir að gögn eða upplýsingar sem hann kynni að veita embættinu leiði líkur að því að hann hefði framið brot. vísir/heiða
Aðalmeðferð í Aurum Holding-málinu hélt áfram í dag. Nú fyrir hádegi hafa verið teknar skýrslur af þáverandi meðlimum áhættunefnar Glitnis en meðal þeirra var Rósant Már Torfason, fyrrverandi fjármálastjóri bankans.

Fram kom að Rósant hefði fengið svokallaða friðhelgi frá embætti sérstaks saksóknara, það er að hann myndi ekki sæta ákæru þrátt fyrir að gögn eða upplýsingar sem hann kynni að veita embættinu myndu leiða líkur að því að hann hefði framið brot.

Rósant kannaðist ekki við að hafa veitt samþykki sitt fyrir lánveitingu bankans til félagsins FS38 en samkvæmt gögnum málsins mun lánið hafa verið samþykkt á svokallaðri millifundasamþykkt. Fyrir þeirri samþykkt eru skráðir téður Rósant og ákærðu Lárus Welding og Magnús Arnar Arngrímsson.

Rósant sagði að það hefði verið ómögulegt að hann hefði getað veitt samþykki sitt fyrir láninu á þeim tíma þar sem hann hafi verið utan net- og símasambands á norðanverðum Vestfjörðum á sama tíma. Hann hafi ekki orðið var við að nafn hans væri notað til að veita láninu samþykki fyrr en slitastjórn Glitnis höfðaði einkamál á hendur sér og öðrum vegna lánveitingarinnar. Var hann þá mjög hissa á því að sjá nafn sitt skráð í skjölum vegna hennar.

Rósant sagði jafnframt að sér hefði þótt eðlilegt að ákvörðun um lánveitinguna hefði farið fyrir stjórn bankans sem og að hann hefði verið mótfallinn lánveitingunni þar sem tryggingar fyrir henni voru ekki nægilegar.

Aðspurður hvort Lárus hafi verið undir þrýstingi að veita lánið sagðist Rósant ekki muna sérstaklega eftir að hafa orðið þess áskynja. En eftir að hafa kynnt sér málið á seinni stigum og skoðað tölvupósta þá hafi honum virst sem nokkur þrýstingur hafi verið á Lárus. Lárusi hafi jafnframt verið mjög blátt áfram um að málið yrði klárað.

Vitnaskýrslur halda áfram nú eftir hádegi þar sem fleiri meðlimir áhættunefndar Glitnis gefa sínar skýrslur og þar á eftir aðrir starfsmenn bankans og aðrir sérfræðingar. Búist er við því að stjórn bankans gefi skýrslu á morgun.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×