Viðskipti innlent

Aðalmeðferð í Aurum málinu í dag

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Jón Ásgeir Jóhannesson mætir í Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun.
Jón Ásgeir Jóhannesson mætir í Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun. vísir/gva
Aðalmeðferð í Aurum-málinu svokallaða hefst í dag.

Í málinu eru þeir Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, Jón Ásgeir Jóhannesson fjárfestir, Magnús Arnar Arngrímsson og Bjarni Jóhannesson, sem báðir voru starfsmenn Glitnis, ákærðir fyrir umboðssvik vegna sex milljarða króna láns sem Glitnir veitti félaginu FS38 ehf. sem var í eigu Pálma Haraldssonar, vegna kaupa á félaginu Aurum Holdings Ltd.

Jón Ásgeir er ákærður fyrir hlutdeild í broti Lárusar með því að hafa með fortölum og hvatningu stuðlað að því að brotið var framið.

Sérstakur saksóknari telur að hlutabréfin í Aurum Holdings Ltd. hafi verið keypt á yfirverði. Þannig hafi stjórnendur og starfsmenn Glitnis misnotað aðstöðu sína hjá Glitni með lánveitingunni til FS38 ehf. Pálma og Jóni Ásgeiri til hagsbóta, en hluti endanlegrar lánveitingar til FS38 ehf. rann í vasa Jóns Ásgeirs samkæmt ákæruskjali, eða alls 702 milljónir króna, sem fóru í uppgjör á persónulegum yfirdrætti hans hjá bankanum. FS38 fór í þrot og peningarnir hafa ekki endurheimst með tilheyrandi tjóni fyrir Glitni.

Aðalmeðferðin hefst á skýrslum ákærðu en stefnt er að því að aðalmeðferðin standi yfir til fimmtudags í næstu viku.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×