Sport

Fékk heilablóðfall en hélt áfram að spila

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Russell Allen neyddist til að leggja hjálminn á hilluna eftir alvarlega uppákomu í NFL-deildinni í haust.

Allen er aðeins 27 ára gamall og hefur spilað sem varnarmaður hjá Jacksonville Jaguars öll sín fjögur tímabil í NFL-deildinni vestanhafs.

Hann fann svo fyrir óþægindum í leik gegn Buffalo Bills í haust. Allen vissi að eitthvað væri að en kláraði engu að síður leikinn.

Tveimur dögum síðar kom í ljós að Allen fékk í raun heilablóðfall en hann greindi frá því nú í vikunni, nokkrum dögum eftir að það varð opinbert að Allen væri hættur hjá Jaguars.

„Þetta var svo skrýtið því þetta virtist ekkert stórmál,“ sagði Allen við fjölmiðla vestanhafs. „Ég fann fyrir einhverju en missti ekki meðvitund. Ég hélt því bara áfram að spila.“

Við nánari rannsóknir kom í ljós að Allen er nú með „dautt“ svæði þar sem heilablóðfallið átti sér stað og getur af þeim sökum ekki stundað íþróttina áfram.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×