Innlent

Dagur B. Eggertsson: „Lít á þetta sem stuðning við meirihlutann í heild sinni“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Dagur nýtur áberandi mests stuðnings af oddvitunum í Reykjavík.
Dagur nýtur áberandi mests stuðnings af oddvitunum í Reykjavík.
Meira en helmingur borgarbúa, 56,5 prósent, vilja að Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, verði borgarstjóri eftir kosningar, samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Fréttablaðsins sem gerð var á þriðjudagskvöld.

Stuðningur við Dag hefur aukist frá síðustu könnun, sem gerð var um miðjan mars. Þá vildu 52,6 prósent borgarbúa að Dagur tæki við borgarstjórastólnum.

„Ég er bara mjög þakklátur fyrir þennan stuðning,“ segir Dagur í samtali við Vísi. „Þessar mælingar hafa verið mjög sterkar undanfarið en þetta er enn að hækka og það þykir mér auðvitað mjög vænt um að sjá. Ég lít í raun á þetta sem stuðning við meirihlutann í heild sinni en ekki mig. Að fólk vilji að áfram sé friður um stjórn borgarinnar og ákveðinn stöðugleiki.“

Um 16 prósent borgarbúa vilja að Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, verði borgarstjóri en það er innan við þriðjungur af þeim stuðningi sem Dagur nýtur samkvæmt könnuninni. Björn Blöndal, oddviti Bjartrar framtíðar, nýtur stuðnings um 8,8 prósenta borgarbúa til að setjast í stól borgarstjóra.

Um 3,5 vilja Sóleyju Tómasdóttur, oddvita Vinstri grænna, sem næsta borgarstjóra, og þrjú prósent Halldór Auðar Svansson, oddvita Pírata. Þá nefndu 0,5 prósent Þorleif Gunnarson, oddvita Dögunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×