Bjarni sagði að í febrúar 2007 hefði FL Group verið komið með mjög stóran eignarhlut í bankanum. „Mér fannst þarna breytingar í aðsigi, ef það yrði kallað til hluthafafundar þá væri þarna einn aðili sem færi með valdið í félaginu. Þegar allt kom saman þá fannst mér þarna tilefni til að stíga til hliðar, ég hef verið talsmaður dreifðrs eignarhalds,“ sagði Bjarni aðspurður um hvers vegna hann hætti sem forstjóri Glitnis.
Hann sagðist hafa látið Jón Ásgeir Jóhannesson vita af óskum sínum þar sem hann taldi hann fara fyrir nýjum eigendum og greindi frá sínum efnahagslegum óskum við starfslokin þar sem hann vildi slíta efnahagsleg tengsl við bankann og selja hluti sem hann átti.
Bjarni sagðist ekkert þekkja til þess hvernig til kom að Lárus Welding, eftirmaður hans, var ráðinn inn í bankann né heldur hvort eða hvernig breytingar urðu á stefnu bankans eftir að hann hætti.
Síðustu vitnin ljúka nú skýrslugjöf sinni en að því loknu mun munnlegur málflutningur hefjast á því að Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari mun halda ræðu sína. Hann áætlar að hún muni standa yfir í þrjár klukkustundir. Verjendur halda síðan sínar ræður en þær munu standa yfir fram á morgundag.


