Fótbolti

„Ég vil gera allt til þess að tryggja öryggi fjölskyldu minnar“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Viðar Örn hefur farið á kostum inn á vellinum.
Viðar Örn hefur farið á kostum inn á vellinum. mynd/skjáskot af vefsíðu RÚV/ fésbókarsíða Vålerenga
„Það hefur verið fjallað töluvert um málið í íslenskum fjölmiðlum en ég vil lítið tjá mig um það,“ segir Viðar Örn Kjartansson, leikmaður Vålerenga í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, í samtali við norska miðilinn Dagbladet.

Ásdís Hrönn Viðarsdóttir, móðir Viðars Arnar, hefur ítrekað kært hótanir og brot á nálgunarbanni sem sett var á fyrrverandi sambýlismann hennar í haust. Hún segir nálgunarbann vera gagnslaust ef lögreglan bregðist ekki við því.

Rætt var við Ásdísi í þættinum Kastljós þann sjöunda maí. Hún flúði ásamt börnum sínum til Þórshafnar á Langanesi af ótta við manninn. Lögreglan hefur fjórar alvarlegar líkamsárásir hans gegn henni til rannsóknar.

Viðar Örn hefur sjálfur farið á kostum í norsku úrvalsdeildinni á tímabilinu og skorað tíu mörk í tíu leikjum. Fram kemur í frétt Dagbladet að ótrúlegt sé hversu vel Viðar hefur spilað á tímabilinu þegar hugur hans er hjá móður hans

„Vissulega hefur þetta áhrif á mig. Ég vil gera allt til þess að tryggja öryggi fjölskyldu minnar en það er svo lítið sem ég get gert við þessu. Maður reynir að aðstoða og auðvitað væri betra ef ég væri núna heima á Íslandi.“

Viðar segist hlakka til að komast heim þegar hlé verður gert á deildarkeppninni í Noregi vegna heimsmeistaramótsins í knattspyrnu sem fram fer í Brasilíu í júní og júlí.

Þrátt fyrir erfiðleika í fjölskyldunni hefur honum gengið ótrúlega vel á sínu fyrsta tímabili í atvinnumennskunni. Viðar Örn er búinn að skora tíu mörk í norsku úrvalsdeildinni í tíu leikjum og er langmarkahæstur í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×