„Við höfum reynt að halda aftur af honum en hann fór algjörlega yfir strikið fyrir stuttu,“ segir Fríða Björnsdóttir í Hverabakaríi í Hveragerði kímin um bakarann sem vakið hefur mikla athygli fyrir klámfengar skreytingar sínar í gluggum bakarísins.
Á þeim má sjá hinar fjölbreyttustu rúmsenur þar sem fönguleg marsípanpör eru í aðalhlutverkum. Yfirleitt er bara ein og ein skreyting til sýnis í búðinni í einu en upp á síðkastið hefur úrval þeirra aukist. „Kona bakarans skrapp til New York um daginn og í kjölfarið hefur hann fengið lausan tauminn,“ segir Fríða.
Marsípanskreytingarnar eru ekki til sölu. „Það er þó hægt að panta þær hjá okkur og njóta þær mikilla vinsælda í steggjunum og brúðkaupum,“ segir Fríða og bætir við að þær séu lítið auglýstar, eins og gefur kannski að skilja. „Við höfum fengið eitthvað af skömmum í hattinn fyrir þetta en flestum gestum okkar þykir þetta eiginlega bara frekar fyndið“.
