Veðurstofan hefur endurskoðað spá sína fyrir hvítasunnuhelgina, - og það til hins betra. Spáin er jafnframt áminning um sólarvörn. Núna er gert ráð fyrir að hámarkshiti helgarinnar geti náð allt að 22 gráðum inn til landsins en í veðurspánni í gær var „bara“ spáð allt að 20 stiga hita.
Veðurspáin fyrir morgundaginn, föstudag, gerir áfram ráð fyrir allt að 20 stiga hita í uppsveitum á Suður- og Vesturlandi, hægri breytilegri átt eða hafgolu og bjartviðri, en þokulofti með austurströndinni. Spáin fyrir laugardag og sunnudag, sól og blíða og brakandi þurrkur um mest allt land, hljóðar svo á veðurfræðingamáli:
„Hæg breytileg átt eða hafgola og bjartviðri en sums staðar þokubakkar við ströndina. Hiti 10 til 22 stig, hlýjast inn til landsins.“
Á mánudag er svo búist við vætu í flestum landshlutum og eitthvað svalara veðri. Spáin fyrir þriðjudag og miðvikudag í næstu viku er svo best fyrir suðvestan- og vestanvert landið með allt að 17 stiga hita þar.
Spáin hækkar í 22 stiga hita

Tengdar fréttir

Spá 20 stiga hita
Sól og blíða eru framundan, einkum inn til landsins, og stefnir í hlýja hvítasunnuhelgi og kjöraðstæður fyrir tjaldútilegu, samkvæmt veðurspá Veðurstofunnar.