Innlent

Halldór fylgdist með síðasta borgarstjórnarfundinum

Samúel Karl Ólason skrifar
Halldór Auðar Svansson, oddviti Pírata í Reykjavík.
Halldór Auðar Svansson, oddviti Pírata í Reykjavík. Vísir/Daníel
Halldór Auðar Svansson, oddviti Pírata í Reykjavík, mætti á síðasta fund núverandi borgarstjórnar í dag, sem áhorfandi. Hann var kjörinn borgarrfulltrúi í sveitarstjórnarkosningunum um helgina og tekur nú þátt í meirihlutaviðræðum með oddvitum Samfylkingarinnar, Besta flokksins og Vinstri grænna.

„Ég hef nú farið sem áhorfandi á borgarstjórnarfund áður, en það er orðið mjög langt síðan,“ segir Halldór. „Mér fannst mjög viðeigandi að mæta á þennan síðasta fund þessa kjörtímabils og taka þátt í þessari kveðjustund. Áður en ég tek svo við þann 16. júní næstkomandi.“

Halldór segir málefni Pírata vera honum ofarlega í huga fyrir komandi kjörtímabil. Málefni eins og gegnsæi upplýsinga, lýðræðisefling og stjórnsýsluumbætur.

„Svo hef ég persónulega mikinn áhuga á málefnum utangarðsfólks og geðfatlaðra, sem eru svolítið útundan í kerfinu. Þau eru þó einnig viss hluti af málefnum Pírata,“ segir Halldór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×