Erlent

Ísraelar boða hertar árásir á Gaza

Heimir Már Pétursson skrifar
Forsætisráðherra Ísraels boðar harðari árásir á Gaza þar til Hamas-liðar láta af flugskeytaárásum á suðurhluta Ísraels. Hátt í fjörtíu manns hafa fallið í loftárásum Ísraelsmanna undanfarna daga, þeirra á meðal konur og börn.

Ísraelsmenn héldu áfram lofárásum sínum á Gaza í nótt eftir harðar árásir í gær og í dag hafa þeir skotið tæplega fimmtíu eldflaugum á Gazaborg og byggðirnar þar í kring.

Herinn segist hafa um fjögur hundruð skotmörk í siktinu á Gaza, stöðvar hernaðararms Hamas samtakanna og jarðgöng sem grafinn hafa verið til að komast á milli staða og yfir landamærin til Egyptalands. Flugskeytin lenda þó oft á íbúðabyggð og hefur fjöldi heimila verið sprengdur í loft upp.

Undanfarna daga hafa að minnsta kosti 35 manns fallið á Gaza, um helmingur þeirra óbreyttir borgarar, þar af fjórar konur og þrjú börn. Hundruð manna hafa særst og hafa neyðarmóttökur í borginni vart undan að taka á móti særðu fólki.

Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísraels segir að hert verði á árásunum þar til Hamasliðar láti af flugskeytaárásum sínum á suðurhluta Ísraels. Ekkert mannfall hefur orðið vegna þeirra árása, enda eru flugskeyti Hamas mun vanþróaðri en háþróuð vopn Ísraelsmanna. Þá hafa Ísraelsmenn náð að skjóta niður mörg af flugskeytum Hamas, m.a. við Tel Aviv og Jerúsalem.

Um 40 þúsund manna varalið ísrelska hersins er í viðbragðsstöðu til innrásar á Gaza, en Ísraelsmenn hafa áður sýnt að þeir eru til alls líklegir telji þeir sér ógnað. Það gæti því enn átt eftir að hitna í kolunum á Gaza með tilheyrandi mannfalli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×