Erlent

Ísraelsmenn samþykkja lengra vopnahlé

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/afp
Stjórnvöld í Ísrael hafa samþykkt fjögurra klukkustunda framlengingu á vopnahléi á Gasa, eða til miðnættis á staðartíma. Svar hefur þó ekki borist frá Hamas-liðum.

Utanríkisráðherra Bretlands, Philip Hammond, sagði í samtali við breska ríkisútvarpið að mikilvægt væri að koma deiluaðilum við samningaborðið og að halda áfram að leggja áherslu á áframhaldandi vopnahlé.

Tólf klukkustunda vopnahlé hófst klukkan fimm í morgun að íslenskum tíma. Þúsundir Palestínumanna fengu því tækifæri til að skoða sig um, en rústir einar voru það sem blöstu við þeim. Þá var vopnahléið jafnfram nýtt til að koma helstu nauðsynjum á svæðið og til að tryggja innviði Gasaborgar, en vatns- og rafmagnslaust hefur verið á svæðinu undanfarna daga.

Yfir þúsund manns hafa fallið í loftárásunum og þúsundir eru særðir. Hátt í hundrað lík fundust í húsarústum á Gasasvæðinu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×