Erlent

Tólf klukkustunda vopnahlé hafið

vísir/afp
Tólf klukkustunda vopnahlé hófst á Gaza klukkan fimm í morgun eftir samkomulag milli stjórnvalda í Ísrael og samtaka Hamas. Átta hundruð og sjötíu hafa fallið í loftárásum Ísraelshers á Gaza frá því að átökin hófust fyrir tæpum þremur vikum, flestir óbreyttir borgarar.

Samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum á Vesturbakkanum féllu nítján í nótt. Björgunarmenn, viðbragðsaðilar og eftirlitsmenn freista þess að koma mannúðaraðstoð á svæðið í dag, nú þegar Hamas og Ísraelsher hafa ákveðið að leggja niður vopn tímabundið.

Íbúar í Shejaiya-hverfi á Gaza sneru til síns heima eldsnemma í morgun. Það sem blasti við var algjör eyðilegging.

Fréttaritari breska ríkisútvarpsins greinir frá því að fjölmargar byggingar séu rústir einar, þá hafi kraftur sprenginganna þeytt bílum fimmtíu metra í loft upp og þeir hafnað á húsþökum. Þá sveima ómönnuð loftför Ísraela yfir rústunum og skothljóð heyrast í fjarska.

Alþjóðlegar viðræður um lengra vopnahlé halda áfram í dag. John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og starfsbræður hans frá Bretlandi, Tyrklandi og Katar funda í París í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×