Erlent

Ban Ki-Moon vill tafarlaust vopnahlé á Gaza

Heimir Már Pétursson skrifar
Ban Ki-Moon segist syrgja með Palestínumönnum vegna mikils mannsfalls og fjölda særðra á Gaza en hann skilji líka ótta Ísraelsmanna og styðji þeirra til að verja sig.
Ban Ki-Moon segist syrgja með Palestínumönnum vegna mikils mannsfalls og fjölda særðra á Gaza en hann skilji líka ótta Ísraelsmanna og styðji þeirra til að verja sig.
Forseti Ísraels harmar að alþjóðleg flugfélög hafa hætt flugi til Tel Aviv eftir að nokkrar eldflaugar hamasliða sprungu í nágrenni flugvallar borgarinnar. Yfir sex hundruð Palestínumenn og um 30 Ísraelsmenn hafa fallið í átökum síðasta hálfa mánuðinn og hvetur framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna til tafarlauss vopnahlés.

Þrátt fyrir stöðugar áskoranir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og þjóðarleiðtoga víða um heim um að Ísraelsmenn og hamasliðar láti af átökum sínum á Gaza, er langt í frá að vopnahlé sé í sjónmáli.

John Kerry utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Ban Ki-Moon framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna funduðu með fulltrúum stríðandi fylkinga í Kairó í gær án nokkurs árangurs. Ban Ki-Moon kom til Ísraels í morgun og átti fund með Simon Peres forseta landsins. Hann segir að ef hamasliðum takist með flugskeytaárásum sínum að hræða alþjóðleg flugfélög frá því að fljúga til Tel Aviv, herði það Hamas í árásum þeirra.

Peres harmaði að flugfélög hefðu aflýst flugi til Tel Aviv. Svarið við þeirri hættu sem stafaði að flugi væri ekki að aflýsa fluginu, heldur koma í veg fyrir flugskeytaárásirnar.

Yfir sex hundruð manns, þar af um einn þriðju börn, hafa fallið í árásum ísraelshers á Gaza frá því yfirstandandi átök hófust fyrir um hálfum mánuði og fjögur þúsund manns hafa særst. Þá hafa 29 ísraelskir hermenn og einn óbreyttur borgari í Ísrael fallið.

Ban Ki-Moon sagði á fréttamannafundi með Peres í morgun að hann skildi ótta Ísraelsmanna við flugskeyti Hamas og Ísrael hefði rétt á að verja sig. En það væri líka mikil örvænting og sársauki meðal Palestínumanna vegna mikils mannfalls,  aðallega á meðal óbreyttra borgara,  og fjölda særðra sem skipti þúsundum.

Ban Ki-Moon sagði að hann sem framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna gæti ekki og ætlaði ekki að standa þögull hjá á meðan þessi harmleikur ætti sér stað. Hann syrgði með fjölskyldum Palestínumanna á Gaza. Ofbeldinu yrði að linna og viðræður stríðandi fylkinga þyrftu að hefjast þegar í stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×