Erlent

Samið um vopnahlé á Gasa

Samúel Karl Ólason skrifar
Blys lýsa upp næturhiminn Gasa.
Blys lýsa upp næturhiminn Gasa. Vísir/AP
Ísrael og Hamas hafa samþykkt 72 klukkustunda vopnahlé af mannúðarástæðum sem hefst klukkan átta í fyrramálið, eða klukkan fimm að íslenskum tíma.

Síðan átökin hófust þann 8. júlí segir BBC að 1.422 Palestínumenn hafi látið lífið, flestir þeirra borgarar, samkvæmt embættismönnum á Gasasvæðinu. 56 ísraelskir hermenn hafa fallið og tveir ísraelskir borgarar.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segja í sameiginlegri tilkynningu að hermenn Ísrael muni ekki fara af Gasa á meðan vopnahléið stendur yfir.

Í sameiginlegri tilkynningu hvetja þeir báða aðila til að fylgja hléinu til hins ítrasta svo íbúar svæðisins fái hjálp sem og hvíld frá átökunum. Sameinuðu þjóðirnar telja að fjórðungur íbúa svæðisins sé á vergangi.

Birgðum verður komið á svæðið og íbúar fá tíma til að grafa látna og safna mat.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×