Erlent

Aukinn þungi settur í árásir á Gasa

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Ísraelska ríkisstjórnin hefur samþykkt að herða sókn sína á Gasa og ætlar að fjölga hermönnum í herliði sínu um sextán þúsund til að setja aukinn þunga í árásir á stöðvar Hamas-liða. Um 425 þúsund Palestínumenn eru nú á vergangi vegna átakanna á Gasa, eða um fjórðungur allra íbúa á svæðinu.

Benjamin Netanyahu, forsetisráðherra Ísraels sagði á blaðamannafundi í dag að Ísaraelsmenn myndu ekki hætta hernaði á Gasa fyrr en öll göng sem Hamas-samtökin hafa byggt, til að komast frá Gasa inn í Ísrael, verði eyðilögð.

Um hundrað manns, stærstur hluti óbreyttir borgarar, féllu í átökunum í gær, þegar Ísraelar skutu á útimarkað og skóla Sameinuðu þjóðanna, þrátt fyrir fjögurra klukkustunda vopnahlé.

Bandaríkjastjórn, frakklandsforseti, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og fleiri leiðtogar hafa hafa fordæmt árásirnar en  að sama skapi staðfesti bandaríska varnarmálaráðuneytið í dag að Bandaríkjamenn hafi nýverið fyllt á vopnabúr Ísraelshers. 

Fimm ríki í Suður-Ameríku hafa kallað sendiherra sína heim frá Ísrael í mótmælaskyni við hernaðaraðgerðir á Gazasvæðinu. Herafli Ísraelshers er gríðarlega stór og eru hermenn nú orðnir áttatíu og sex þúsund talsins.

Greint er frá því í ísraelskum fjölmiðlum í dag að hernaðaraðgerðir á Gaza hafi kostað Ísraelsmenn hátt í 197 milljarða króna. 1.400 Palestínumenn hafa nú fallið í átökunum á Gasa og 58 Ísraelsmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×