Erlent

Bólivíumenn lýsa því yfir að Ísrael sé "hryðjuverkaríki“

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Evo Morales segir Ísrael ekki virða mannréttindasáttmála SÞ.
Evo Morales segir Ísrael ekki virða mannréttindasáttmála SÞ. Vísir/GETTY/AFP
Evo Morales, forseti Bólivíu, lýsti því yfir í gær að Ísrael væri „hryðjuverkaríki“, vegna framgöngu Ísraelshers á Gasa-svæðinu.

Samhliða yfirlýsingunni voru gerðar breytingar á samskiptum ríkjanna. Nú þurfa ísraelskir ríkisborgarar að sækja sérstaklega um vegabréfsáritun þegar þeir ferðast til Bólivíu. Árið 1972 skrifuðu fulltrúar Ísraels og Bólivíu undir samkomulag sem fól í sér að ríkisborgarar ríkjanna þyrftu ekki vegabréfsáritanir þegar þeir ferðuðust á milli landanna.

Bólivíumenn skipta ríkjum heimsins upp í flokka, eftir því hversu ítarlegar samþykktir ríkisborgarar þeirra ríkja þurfa að fá til að hljóta vegabréfsáritun. Ísrael er nú komið í neðsta flokkinn - þann þriðja - og þurfa ísraelskir ríkisborgarar að sækja um vegabréfsáritun til Útlendingastofnunar Bólivíu.

„Með öðrum orðum erum við að lýsa því yfir að Ísrael sé hryðjuverkaríki," segir Evo Morales í samtali við bólivíska miðilinn Página Siete og bætir við:

„Ísraelsmenn hafa ekki virt mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna."

Í frétt frá USA Today kemur fram að ungt fólk frá Ísrael ferðast gjarnan til Suður Ameríku. Samskipti landsins við ríki álfunnar eru nú orðin stirð. Brasilía, Chile, Ekvador og Perú hafa kalla sendiherra sína heim frá Ísrael.

Í vikunni sagði Vísir frá því að talsmaður ísraelska utanríkisráðherrans hefði hnýtt í Brasilíumenn vegna þess að knattspyrnulandsliðið tapaði 7-1 fyrir Þjóðverjum í undanúrslitum HM í sumar. Hann sagði jafnframt að Brasilía „væri enn diplómatískur dvergur." Þessi ummæli hans komu eftir að brasilísk stjórnvöld fordæmdu valdbeitingu Ísraelshers á Gaza og ákváðu að kalla sendiherra sinn heim frá Tel Aviv.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×