Erlent

Loft- og eldflaugaárásir aftur hafnar á Gasa

Atli Ísleifsson skrifar
Ísraelsher sagði eldflaugaárásir Hamas-liða vera með öllu óásættanlegar, óþolandi og skammsýnar.
Ísraelsher sagði eldflaugaárásir Hamas-liða vera með öllu óásættanlegar, óþolandi og skammsýnar. Vísir/AFP
Ísraelsher hefur staðfest að loftárásir á Gasa hafi verið teknar upp að nýju eftir að Hamas-liðar skutu eldflaugum á Ísrael í morgun. Lauk þar með þriggja sólarhringa vopnahléi.

Ísraelsk stjórnvöld segjast nú hafa slitið þeim friðarviðræðum sem stóðu yfir í Egyptalandi vegna árása Hamas-liða. Ísraelsher sagði eldflaugaárásirnar vera með öllu óásættanlegar, óþolandi og skammsýnar.

Hamas-samtökin höfðu áður hafnað framlengingu vopnahlésins þar sem ísraelsk stjórnvöld hafi ekki gengið að kröfum þeirra.

Á vef BBC segir að 1.940 manns hafi fallið í árásum deiluaðila síðustu fjórar vikurnar. Segir að samkvæmt talningu Sameinuðu þjóðanna hafi 1.890 Palestínumenn fallið, fyrst og fremst óbreyttir borgarar.

Stjórnvöld í Ísrael segja 64 ísraelska hermenn hafa fallið í átökunum, auk tveggja óbreyttra borgara. Þá sé fullyrt að um 900 herskáir Hamas-liðar hafi fallið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×