Innlent

Hjúkrar særðum á Gasa

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Elín Oddsdóttir.
Elín Oddsdóttir. Mynd/Rauði Krossinn
Elín Oddsdóttir skurðhjúkrunarfræðingur er komin til starfa á Gasa ströndinni, þar sem hún mun hjúkra stríðssærðum á vegum Rauða krossins næstu vikur. Elín starfar með læknateymi Alþjóða Rauða krossins, en mikið álag er nú á heilbrigðisstarfsfólk Rauða krossins á Gasa. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Rauða krossins.

Fleiri en 1.800 Palestínumenn hafa látið lífið í árásum Ísraelshers á Gasa síðustu fjórar vikur, rúmlega 8 þúsund hafa særst og 250 þúsund manns hafast við í flóttamannabúðum á vegum Sameinuðu þjóðanna. Mikil þörf er fyrir lækna og hjúkrunarfræðinga til að hlúa að særðu fólki en skortur er á ýmsum sjúkragögnum og lækningatækjum.

Elín starfaði á vegum Rauða krossins í Suður-Súdan fyrr á þessu ári og hefur reynslu af meðferð stríðssærðra.

Aðstæður hjálparstarfsfólks Rauða krossins á Gasa eru ákaflega erfiðar. Á föstudag urðu sjúkrahús og skrifstofur Palestínska Rauða hálfmánans fyrir árásum, en þegar hafa tveir starfsmenn Rauða hálfmánans látið lífið og 40 særst síðan árásirnar hófust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×