Erlent

Ísraelar leita ungs hermanns

Atli Ísleifsson skrifar
Rúmlega 1.400 Palestínumann og um sextíu Ísraelar hafa látið lífið í átökum síðustu vikna.
Rúmlega 1.400 Palestínumann og um sextíu Ísraelar hafa látið lífið í átökum síðustu vikna. Vísir/AP
Hersveitir Ísraelshers leita nú Hadar Goldin, 23 ára hermanns, sem talið er að hafi verið rænt af Hamas-liðum fyrr í dag. Um sjötíu Palestínumenn létu lífið í árásum Ísraelshers á Gazasvæðinu í dag.

Mannskæðasta árás Ísraelshers í dag átti sér stað stuttu eftir að Ísraelsmenn sökuðu Hamas-liða um að rjúfa vopnahléið á svæðinu. Miklar vonir höfðu verið bundnar við vopnahléið sem átti að gilda í þrjá sólarhringa og gefa deiluaðilum tíma til að hefja friðarumleitanir.

Goldin hvarf þegar ráðist var á ísraelska hermenn sem voru að vinna að eyðileggingu gangna undir landamæri Gasa og Ísraels, en tveir hermenn létust í átökunum.

Hamas hefur hvorki staðfest né neitað því að hafa rænt hermanninum. Árið 2006 náði hópur Palestínumanna ísraelska hermanninum Gilad Shalit og héldu honum föngnum í fimm ár.

Á vef BBC segir að honum hafi verið sleppt í nóvember 2011 í skiptum fyrir þúsund palestínska fanga sem haldið var í ísraelskum fangelsum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×