Erlent

Friðarviðræður að leysast upp

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Sendinefnd Palestínu ætlar að yfirgefa Kaíró, muni sendinefnd Ísrael ekki snúa aftur. Ísraelsmenn segjast ekki ætla að snúa að samningsborðinu á meðan flugskeytum er skotið frá Gasa. Hamas vildi ekki framlengja tímabundið vopnahlé sem rann út í vikunni. Þeir krefjast þess að Ísrael opni landamæri Gasa.

Þó sendinefnd Ísrael hafi ekki verið í Kaíró, hafi egypskir sáttasemjarar flutt skilaboð á milli deiluaðila.

AP fréttaveitan segir að síðan vopnahléið var afnumið hafi tugum flugskeyta verið skotið frá Gasasvæðinu, en svo líti út fyrir að Hamas samtökin hafi ekki verið að verki. Minni samtök vígamanna hafa lýst yfir ábyrgð á árásunum.

Þá hafa Ísraelsmenn sagt að landamæri Gasa verði ekki opnuð fyrr en Hamas samtökin leggi niður vopn. Hamas segja að það muni ekki gerast, en talið er að þeir eigi einhverjar þúsundir flugskeyta.

Ísraelsher segist hafa gert árásir á 5.000 skotmörk og að Hamas samtökin hafi skotið rúmlega 3.000 flugskeytum að Ísrael síðan átökin hófust. Embættismenn á Gasa segja að þrír hafi látið lífið, þar af 14 ára drengur, og tólf hafi særst í loftárásum í nótt.

Þá skaut floti Ísrael á fiskihöfn í Gasa í nótt þar sem eldur kviknaði í byggingu þar sem sjómenn geyma búnað sinn.

Rúmlega 1.9000 Palestínumenn hafa fallið síðan átökin hófust og þar af minnst 450 börn. Þá eru börn sögð vera um einn þriðji af þeim tíu þúsund manns sem hafa slasast. Meira en tíu þúsund heimili hafa verið eyðilögð og 65 þúsund manns eru á vergangi og halda til í skjólum sem Sameinuðu þjóðirnar hafa byggt.

Vísir/GraphicNews



Fleiri fréttir

Sjá meira


×