Aðalmeðferð í máli ríkissaksóknara á hendur síbrotamönnunum Baldri Kolbeinssyni og Eggerti Kára Kristjánssyni fyrir árás á refsifangann Matthías Mána Erlingsson hófst í morgun í Héraðsdómi Suðurlands. Matthías varð fyrir fólskulegri árás fyrrnefndra samfanga sinna í september á síðasta ári. Árásin átti sér stað í útivistargarði fangelsins Litla-Hrauni.
Matthías bar fyrir sig minnisleysi í vitnaleiðslum í morgun. Hann sagðist ekki muna hvaða áverka hann hefði hlotið vegna árásarinnar en munu samfangar hans, Baldur og Eggert, hafa greitt honum ótal högg í andlit og höfuð. Notuðu þeir meðal annars lás til verksins. Í kjölfarið hlaut Matthías þrjá skurði á enni.
Aðspurður hvort hann hafi hlotið einhver ör á líkama sagðist hann ekki vita til þess. „Ég er ekki læknir. Ég er með fullt af örum á líkamanum,“ sagði Matthías í vitnaleiðslum.
Matthías sagðist ekkert muna en aðspurður svaraði hann því til að hann myndi næst eftir sér í tölvuleik.
„Ég var í Fight night. Ég var Tyson og hinn Muhammed Ali.“ Aðspurður hvort hann myndi eitthvað meira svaraði hann: „Ég er meðvituð vera. En ég er kannski bara með Alzheimer,“ og gaf ekki frekari skýringar á því.
Baldur Kolbeinsson, 24 ára, hefur hlotið fjölda refsidóma frá sautján ára aldri en Eggert Kári, 23 ára, á styttri refsiferil að baki. Þeir voru báðir færðir í einangrun eftir árásina. Matthías var dæmdur árið 2012 í fimm ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps. Þá vakti flótti hans úr fangelsinu Litla Hrauni í desember 2012 mikla athygli.