Innlent

Býr eldgosið til eitraða rigningu?

Stefán Árni Pálsson skrifar
Getur verið að eldgosið búi til rigningu og jafnvel úrhellisdembur? Og kannski eitraða úrkomu? Þessara spurninga spurði Kristján Már sig á gosstöðvunum og fékk athyglisverð svör á Veðurstofunni.

Þegar fréttamenn óku að gosstöðvunum tók skyndilega að rigna, þurrkurnar voru settar á, og þetta gerðist einmitt þegar ekið var undir gosbólstrana um tíu kílómetra frá gígunum.

Þegar horft var svo á vatnið á Flæðunum á Dyngjusandi mæta glóandi hrauninu, og breytast um leið í sjóðheita gufu þá var engu líkara en að gosið væri að búa til rigningu.

Svæðið norðan Vatnajökuls er samt sem áður talið það þurrasta á landinu. Óli Árnason veðurfræðingur segir vel mögulegt við vissar aðstæður, eins og voru fyrr í vikunni, með mildu lofti við jörðu en köldu ofar, að eldgos valdi rigningu.

Oddur Sigurðsson jarðfræðingur taldi sig sjá þetta gerast í Kröflugosi sumarið 1980.

„Þá var tiltállega gott veður en það hrönnuðust ský yfir eldstöðina og rigndi svona að mér fannst heldur óvænt,“ segir Oddur.

„Ég velti þessari spurningu upp með veðurfræðingum og einhverjum fleirum en það kom nú ekkert ákveðið svar út úr því. Ég hef nú haft þá á tilfinningunni að það geti vel verið að eldgos búi til úrkomu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×